Um höfund

Ég veit ekki hvort ég eigi að kalla mig rithöfund eða kvikmyndagerðarkonu eða tónlistarkonu eða textasmið. Kannski bara þúsundþjalasmið. Ég kann allskonar og þrífst í lifandi umhverfi, nýjum hugmyndum, í kringum fólk en líka ein í friði með sjálfri mér.

Á árunum 2022 - 2024 komu bækurnar mínar um Tinnu, Allt er svart í myrkrinu, Á eftir dimmum skýjum og Undir sjöunda þili út og hafa þær notið þó nokkurra vinsælda.

Fyrsta bókin, Allt er svart í myrkrinu hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og var einnig tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Nýjasta bókin mín, Rugluskógur er skrifuð fyrir yngri lesendahóp og fjallar um að virkja ímyndunaraflið með því að rugla og bulla. Bergrún Íris gerði myndir í bókina.

Núna er ég með nokkrar bækur í vinnslu og stefni á að gefa næst út haustið 2026. Einnig er ég að vinna að heimildarmynd um hljómsveitina mína Ukulellur, en í september fór ég með myndina til Malmö við góðar móttökur, þar sem hún var valin til að taka þátt á Nordisk Panorama Forum.